Um okkur
Glöggt auga gestsins og ástríða fyrir íslensku sauðfé, sjálfbærni og nýsköpun hratt okkur út í þetta ævintýri sem í dag er eina íslenska fyrirtækið sem sérhæfir sig í framleiðslu á matvöru úr sauðamjólk, auk þess að vera eini framliðandi íss úr náttúrulegum hráefnum er einnig eini framleiðandi íss úr náttúrulegu hráefni á Austurlandi. Þá rekum við matarvagn við Hengifoss.
Sagan
,,ERTU KLIKKUÐ?“
„Hvað? Er þér alvara? Það eru fleiri kindur en manneskjur á Íslandi
en samt gerir enginn sauðaost??? En hann er svo góður!“
Ég (Ann-Marie) flutti til Íslands árið 2016 og þessar spurningar hringsóluðu í höfði mínu. Ég gat ekki kyngt þeirri staðreynd að hvergi væri hægt að kaupa sauðaost á Íslandi þótt hann sé algengur um alla Evrópu og víðar. Hann er í hávegum hafður í matarmenningarríkjum á borð við til dæmis Ítalíu, Spán og Frakkland.
Hugmyndin um að mjólka kindur og búa til sauðaosta óx þegar ég settist að í Fljótsdal á Austurlandi með syni sauðfjárbónda.
Björninn var þó ekki enn unninn. Fleiri en tengdafaðir minn voru efins þegar ég nefndi hugmyndina fyrst: „Ha? Ostur úr sauðamjólk? Smakkast hann ekki eins og ull?“ var oft spurt.
Árið 2018 náði ég að sannfæra tengdaföður minn, því hann er í eðli sínu opinn og forvitinn. Eftir að féð kom af fjalli það haust vorum við reiðubúin að mjólka í fyrsta sinn. Kassi sem notaður var við rúning, fékk nýtt hlutverk og handpumpa voru fyrstu verkfærin … guð minn góður – síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þýsk vinkona mín hjálpaði mér fyrstu kvöldið. Við svínbeygðum á okkur bökin og fengum krampa í hendur og hné þegar við börðumst við að safna því sem urðu loks 40 lítrar áður en yfir lauk. Við frystum mjólkina til að geta notað hana síðar.
Rollurnar voru kargar í fyrstu en með endurteknum verðlaunum sættu flestar sig við köldu hendurnar sem komu aftan frá.
Síðar um haustið gafst mér tækifæri að sækja ostagerðarnámskeið hjá Þorgrími á Erpsstöðum í Dölum. Þar bjó ég til minn fyrsta sauðaost, og reyndar fyrsta ostinn á ævinni.
Ég fór á jólamarkaðinn á Egilsstöðum og gaf fólki að smakka. Ég þurfti ítrekað að sannfæra fólk um að prófa. Í andlitum fólk ég sá ég hugsanir á borð við: „Hvað er þessi Þjóðverji að hugsa – ostur með ullarbragði?“
Blessunarlega var fólk samt tilbúið að láta lítinn ullarmola upp í sig og þá breyttist svipurinn: „Vá – þetta er ótrúlega bragðgott!“
Þetta var vendipunktur fyrir framhaldið. Ljóst var að við gætum ekki gert allt með höndunum við sömu kringumstæður og um haustið þannig við sóttum um styrki. Það kom okkur á óvart, eiginlega sló okkur losti, þegar við fengum mikinn stuðning frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Uppbyggingarsjóði Austurlands. Með honum gátum við keypt litla mjaltavél, nokkur tæki til ostagerðar og smíðað lítinn mjaltastand fyrir fjárhúsið okkar.
Þar með vorum við komin af stað og Sauðagull ehf. var formlega stofnað snemma árs 2019
Klikkar ekki!
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Við byrjuðum á að búa til ost og konfekt úr sauðamjólkinni en frá fyrsta degi höfum við haft ástríðu fyrir ís og dreymt um að opna okkar eigið kaffihús.
Árið 2019 sótti ég ísgerðarnámskeið hjá Uwe Koch’s Eisfachschule í Þýskalandi. Þar til ég fór á það hélt ég að mér þætti til dæmis hvorki mangó né hindber góð í ís. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að mér hafi ekki þótt mangó góður ávöxtur áður. Nú slíkur ís meðal þess sem ég held mest upp á af þeim ís sem ég geri sjálf.
Uwe kenndi okkur að búa til „gelato“ ís með hreinum og náttúrulegum hráefnum, svo sem alvöru ávöxtum. Hann útskýrði fyrir okkur að flestar ísgerðir í dag treysta á tilbúnar blöndur og duft, sem innihalda litar-, bragð- og rotvarnarefni. Ég fann muninn um leið og ég smakkaði. Ég brann fyrir að læra að búa til ís sem væri svooona góður á bragðið!
Þótt aðalmarkmiðið hefði verið að læra ísgerð til að nýta sauðamjólkina þá gat ég ekki látið þar staðar numið. Um leið og prófskírteinið var í höfn fæddist hugmyndin að Hengifossísnum.
Árið 2020 sóttum við um styrki fyrir nauðsynlegum tækjum og fengum ótrúlegan stuðning frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Atvinnumálum kvenna og Samfélagssjóði Fljótsdalshrepps. Þar með gátum við látið ísdrauma okkar rætast!
Samhliða þessu höfðum ég og maðurinn minn lengi rætt og látið okkur dreyma um að opna eigið kaffihús við Hengifoss. Bærinn okkar er þar í nágrenninu og fjölskylda mannsins míns tengist jörð í nágrenni fossins. Þegar okkur varð ljóst að kaffihúsið væri ekki innan seilingar ákváðum við í staðinn að opna matarvagn. Við létum vaða á það í mars 2021, það væri nú eða aldrei. Þrátt fyrir Covid-faraldurinn töldum við áhættuna litla og vel þess virði. Sumarið 2021 opnaði ég því Hengifoss Food Truck. Þar gat ég boðið fólki upp á sama ísinn og ég hafði heillast af, vöfflur eftir uppskrift ömmu minnar, heimagerða íslenska kjötsúpu og fleira.
Best af öllu var samt heyra gest eftir gest segja á einhvern hátt: „Þetta er svooo gott!“
Miðlar
-
Bændablaðið:
-
Austurfrétt:
22.6.2021: Selur ís úr sauðamjólk við hengifoss
-
Landinn:
17.12.2020: Býr til ost og konfekt úr sauðamjólk
-
MDR (þýsk sjónvarpsstöð):
Heimildarþáttur “Thomas Junker Unterwegs – Europas einsame Inseln” – Nóvember 2020
Iceland Review October/November -
Morgunblaðið:
27.6.2021: Selur Sauðamjólkurís við Hengifoss
12.6.2020: Hyggst gera ís úr sauðamjólk
-
N4:
26.11.2020: Sauðamjólk
-
RÚV:
11.12.2019: býr til góðgæti úr sauðamjólk í fljótsdal
-
RÁS 1:
Viðtal í Víðsjá í júní 2020
-
Viðskiptablaðið:
22.8.2021: ís og konfekt úr sauðamjólk